Gróðurhús við alla leikskóla í Hlíðunum

Gróðurhús við alla leikskóla í Hlíðunum

Hvað viltu láta gera? Reisa og reka samfélagsgróðurhús við hvern einasta leikskóla. Þar munu börnin okkar leika sér að því að planta og rækta grænmeti, krydd og ávexti og þróa til þeirra jákvætt viðhorf. Til lengri tíma litið munu húsin víkka sýn fólks á það hvað er hægt að rækta hér á landi með einföldu skjóli fyrir veðri og vindum og viðbótarljósi í svartasta skammdeginu. Samfélagsgróðurhúsin skulum við hugsa frá grunni sem fallega, örugga og umhverfisvæna heildarlausn til framtíðar. Nota algjörlega vistvæn efni. Grind úr sérstaklega meðhöndluðum viði sem gerir hann níðsterkan og ónæman fyrir myglu. Nýstárlegar rúður úr glærðu tré sem er margfalt léttara, sterkara og öruggara efni en gler, því ef það gefur eftir rifnar það í hættulausa strimla í stað þess að brotna. Húsin hitum við með ókeypis affallsvatni og lýsum með sparneytnum LED gróðurhúsaljósum. Vefsíða og app samfélagsgróðurhúsanna verða miðstöðvar fræðslu og samskipta sem og viðhalds- og pöntunargátt leikskólanna (sjá viðhengi) t.d. fyrir hús, fræ og smáplöntur. Einfalt en hátæknilegt kerfi sem líka heldur utan um net garðyrkjufræðinga og gerir skólunum kleift að njóta þjónustu þeirra, s.s. ráðgjöf um ræktunina og vitja hennar öðru hverju þannig að hún dafni áfallalaust. Heildarlausn til framtíðar. Leyfum okkar að skyggnast inn í mögulega framtíð. Sjáðu barnið þitt fyrir sér í eltingaleik við vini sína í leikskólanum. Þau hlaupa hlæjandi inn í blómlegt gróðurhús og grípa með sér safaríkt epli af tré sem þau plöntuðu sjálf. Í hádeginu sendast þau nokkur saman fyrir kokkinn út í gróðurhús eftir handfylli af ferskri myntu til að hafa út á súpuna. Hversu miklu mundi það breyta fyrir þjóðfélagið ef hvert einasta barn hefði aðgang að gróðurhúsi fimm daga vikunnar árum saman á einu mesta mótunarskeiði lífsins? Þessi framtíð er bæði fullkomlega framkvæmanleg og innan seilingar. Hvers vegna viltu láta gera það? Íslendingar á öllum aldri neyta að meðaltali allt of lítils grænmetis og ávaxta. Innflutningur á þessari hollustu er dýr og mengandi miðað við íslenska framleiðslu. Þeir sem eiga gróðurhús, kynnast af eigin raun muninum á fersku og innfluttu grænmeti og ávöxtum. Bein tenging er á milli þess að rækta grænmeti og velja að versla ferskt, íslenskt grænmeti. Hver kannast ekki við að kaupa innflutt grænmeti og ávexti sem oft endast varla ferðina heim í innkaupapokanum? Staðreyndin er að með landsins gæðum er hér hægt að rækta flest það sem Íslendingar neyta. Það sem þarf er að hnika til menningu og hugarfari varanlega og í rétta átt. Besta og áreiðanlegasta leiðin til þess er hreinlega að ala æsku landsins upp við þann veruleika. Við höfum nefnilega allt sem til þarf. Nægt rými á rúmgóðum leikskóla- og grunnskólalóðum fyrir smekkleg og snotur gróðurhús. Sömuleiðis í görðunum við flest heimili. Hér er ódýr og endurnýjanleg raforka. Jarðhitaaffall af hitaveitukerfum skóla, heimila og stofnana má leiða í húsin til upphitunar. Langir og bjartir sumardagar og mildir vetur draga úr sveiflum og lýsa má svartasta skammdegið með hagkvæmri LED lýsingu. Náttúrulegt skjól undir trjám og við runna hlífir húsunum fyrir vindi og moldin undir fótum okkar er næringarrík. Kunnátta í ræktun leynist víða en áratugastarf Garðyrkjuskólans á Reykjum hefur myndað tengslanet garðyrkjufræðinga um land allt. Það nánast bíður eftir því að vera virkjað. Uppfræðum komandi kynslóðir um hreina, holla og hagkvæma heimaræktun ávaxta og grænmetis. Framtíðin er björt, gómsæt, græn og safarík! Í nafni fulls gagnsæis skal tekið fram að Rúnar er framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Samfélagsgróðurhús ehf. Hugmyndina þróuðu stofnendur þess í nýsköpunarhraðlinum Snjallræði 2019 á vegum Höfða friðarseturs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og með aðstoð leiðbeinanda m.a. frá MIT designX í Boston, HÍ, HR og LHÍ. Fyrirtækið hlaut Sprotastyrk Tækniþróunarsjóðs 2020 til að þróa nákvæmlega þetta verkefni og skrifaði undir samning þess efnis við RANNÍS/TÞS. Stuðningur almennings í hverfakosningum hefur ætíð verið algert aðalatriði í öllum áætlunum. Undirbúningi er lokið og nú hefur þú tækifæri til að láta rödd þína heyrast. Samfélagsgróðurhús gætu fyrir þitt tilstilli, risið við alla leikskóla borgarinnar í þínu hverfi; Björtuhlíð, Hlíð við Eskihlíð og Sólhlíð, Klambra, Nóaborg, Sólborg og Stakkaborg og staðið sjálfstæðum leikskólum til boða. Viljirðu að samfélag okkar allra taki saman höndum og geri þennan draum að veruleika fyrir börnin okkar, þá gefðu það til kynna með atkvæði þínu og deildu kosningunni meðal vina og vandamanna.

Points

Mæli með þessu! Mjög jákvætt fyrir börnin að sjá grænmeti vaxa og taka þátt í ræktuninni. Mold er undirstaða alls lífs á landi og lærdómsríkt fyrir börnin að handleika mold í stað sands alla daga.

Það eru fáar hugmyndir sem ég hef heyrt sem gera börnunum okkar eins gott og þessi.

Það væri svakalega gott fyrir mataræði barna (fullorðinna framtíðarinnar) að hafa ferskt og gott grænmeti við höndina þar sem þau eru oftast. Svo myndi þetta einnig auka þekkingu barna á plöntum og jurtum og þau myndu hugsa betur um náttúruna heldur en fólk gerir núna.

Þetta er heillandi verkefni 😀 færir börnum og reyndar líka þeim sem eldri eru gott verk fyrir hug og hönd. Fyrir tæpum 70 árum gekk ég daglega ein langa leið til að hlúa að grænmetinu mínu í Skólagörðum borgarinnar á Klambratúni. Gleðin og stoltið yfir uppskerunni, sáði fræjum í barnssálina sem spíra þar enn. Ungur nemur, gamall temur eru orð að sönnu , að læra að rækta garðinn sinn er dýrmætt veganesti út lífið í orðsins fyllstu merkingu 🤗

,,Hollur er heimafenginn baggi" er alþekkt spakmæli um að hver og einn skuli búa að sínu. Til þess að svo megi verða, ekki síst í okkar þjóðfélagi nútímans, er mikil þörf á aðgerðum sem fá jákvæða hvatningu til að byrja, helst strax á unga aldri, að taka þátt í verkefni, sem elur okkur upp til sjálfnægtar á skemmtilegan og uppbygilegan hátt. Varla er hægt að hugs sér verkefni, sem nær eins auðveldlega þessu markmiði og hugmyndin um gróðurhúsin.

Kæri hugmyndahöfundur, þakka þér kærlega fyrir þátttöku þína í verkefninu Hverfið mitt. Yfir 1320 mjög góðar hugmyndir bárust og öll þátttökumet voru slegin. Fagteymi sérfræðinga verkefnisins hefur lokið við yfirferð hugmynda. Hugmyndin þín er ekki tæk* til kosningar í verkefninu Hverfið mitt 2020 - 2021. Verkefni sem er áþekkt þessari hugmynd er nú þegar í gangi hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og er á tilraunastigi. Ekki er komin niðurstaða og reynsla af því verkefni og því ekki hægt að kjósa um hugmyndina að svo stöddu. Næsta skref í verkefninu er að velja þær hugmyndir sem eiga að fara á kjörseðilinn í hverju hverfi. Þetta skref fer fram á opnum aukafundum íbúaráða sem verður streymt á Facebook. Allir geta tekið þátt í þessum fundum. Þeir sem fylgjast með útsendingunni geta tekið þátt í uppstillingunni. Gaman væri að þú tækir þátt í því að vekja athygli á fundinum þegar hann verður í þínu hverfi sem og kosningunni þegar þar að kemur. Dagsetningar fundanna, hlekkir á Facebook eventa og nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. *Starfsfólks verkefnisins fer yfir innsendar hugmyndir og haft er samstarf við ýmsa sérfræðinga þegar metið er hvort hugmyndir uppfylla reglur verkefnisins. Nánari upplýsingar um yfirferðarferlið: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-god-rad-fyrir-thina-hugmynd. Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson hverfidmitt@reykjavik.is

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information