Útivistar- og fjölskyldusvæði við Höfða

Útivistar- og fjölskyldusvæði við Höfða

Hvað viltu láta gera? Að hannaður sé fallegur og gróðursæll almenningsgarður/útivistarsvæði á grasbalanum við Höfða. Hægt er að gróðursetja fallega runna og tré sem skýla fyrir umferð úr Borgartúninu, búa til lautir og bala, og setja upp leikgrindur fyrir börn, bekki fyrir lautarferð, stíga og önnur útivistartæki. Í kringum þetta svæði er að sækja mikla þjónustu sem gæti hagnast á þessu fyrirkomulagi - td væri gaman að ná sér í take away kaffi á Kaffitári og setjast svo í garðinn, eða bakkelsi eða tælenskan mat og eiga notalega lautarferð í sólinni með fjölskyldunni einn sumardag. Hvers vegna viltu láta gera það? Túnin eru ört stækkandi hverfi og fer nýbyggingum fjölgandi með hverju árinu. Fjölskyldufólk hrannast inn í hverfið, og iðar hverfið af lífi, starfi og þjónustu. Þessi fjölbreytileiki kallar eftir því að fjölskyldufólk og íbúum hverfisins sé betur sinnt, og hugað sé að grænni og gróðursælari reitum, inn á milli allrar steypunnar og háhýsanna. Það hefur margsannað sig að grænir reitir í þéttbýlum létta lund og auka lífsgæði, sem og ýta undir að fjölskyldur flytji í hverfin. Það er afar mikilvægt í dag að auka möguleika á útivist í göngufæri, og upphefja þau fáu grænu svæði sem eftir eru í borginni, bæði í ljósi umhverfisástæðna og lýðheilsu, og sérstaklega með þéttingu byggðar að leiðarljósi. Það eru sárafá græn svæði eftir í Túnunum, og leikvellir eru af skornum skammti. Að nýta túnið við Höfða, sem í dag er afar fánýtt og berangurslegt, væri kjörin leið til að auka græn svæði í þessu skemmtilega hverfi. Þetta er ágætlega stórt svæði, og þó einhver hluti grasbalans sé nýttur undir almenningsgarð og leikvöll, er nægur hluti þess eftir fyrir aðkomu að Höfða eða til að halda til haga undir bílastæði eða annað sem er þar nú fyrir.

Points

Það vantar sárlega grænt svæði/leiksvæði fyrir þetta hverfi. Mikið af barnafólki sem býr í túnunun um þessar mundir

Tek undir að það vantar sárlega græn svæði í Túnin. Við ættum að fylla af gróðri þau fáu opnu svæði sem eru eftir í hverfinu. Gera að almennilegum almenningsgarði.

Kæri hugmyndahöfundur, þakka þér kærlega fyrir þátttöku þína í verkefninu Hverfið mitt. Yfir 1320 mjög góðar hugmyndir bárust og öll þátttökumet voru slegin. Fagteymi sérfræðinga verkefnisins hefur lokið við yfirferð hugmynda. Hugmyndin þín er ekki tæk* til kosningar í verkefninu Hverfið mitt 2020 – 2021 þar sem svæðið er fyrirhugað í skipulagsvinnu og ekki hægt að kjósa um framkvæmdir þar að svo stöddu. Önnur hugmynd sem snýr að því að endurbæta græna útivistar- og leiksvæðið við Sóltún og útbúa almenningsgarð var ein af efstu fimm hugmyndunum í hverfinu og komst sjálfkrafa áfram og verður á kjörseðlinum í haust. Fundir íbúaráðanna þar sem valið verður hvaða hugmyndir fara á kjörseðla hverfanna næsta haust verða formlegir aukafundir þar sem allir geta tekið þátt. Við viljum eindregið hvetja þig til þess að taka þátt í fundinum í þínu hverfi og vekja athygli á honum og hugmynd þinni eins og þú hefur tækifæri til. Dagsetningar allra fundanna, hlekkir á Facebook eventa og nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. *Starfsfólks verkefnisins fer yfir innsendar hugmyndir og haft er samstarf við ýmsa sérfræðinga þegar metið er hvort hugmyndir uppfylla reglur verkefnisins. Nánari upplýsingar um yfirferðarferlið: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-god-rad-fyrir-thina-hugmynd. Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson hverfidmitt@reykjavik.is

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information