Hvað viltu láta gera? Setja upp fleiri reiðhjólastæði í íbúðahverfum í miðborginni. Hvers vegna viltu láta gera það? Nokkuð áþreifanlegur skortur er á plássi og stæðum fyrir reiðhjól í miðborginni. Undanfarin ár hefur verið komið upp reiðhjólastæðum við verslunargötur t.d á Laugavegi, Hverfisgötu og Skólavörðustíg. Hins vegar mætti gjarnan bæta við stæðum við íbúðagötur í miðborginni. Byggðin í Þingholtunum, Gamla Vesturbæ og víðar í er þétt og ekki allir íbúar með aðgang að geymsluplássi fyrir reiðhjól. Það er algeng sjón að sjá hjól hlekkjuð við ljósastaura, girðingar eða í húsasundum. Því ættu borgaryfirvöld að huga að því að útbúa fleiri pláss fyrir reiðhjól í íbúðarhverfum. Það er auðvelt að skapa slíkt pláss með því að fjarlægja nokkur bílastæði og setja hjólastæði í staðinn. Í staðinn fyrir einn bíl mætti koma fyrir 10 til 15 reiðhjólum. Borgaryfirvöld gætu útfært hugmyndina með það í huga að hjólin væru örugg, stæðin yfirbyggð og að þau væru smekklega hönnuð. Vel útfærð tillaga gæti verið staðarprýði og jafnvel borgareinkenni. Þessi lausn ætti að vera hjólanotendum til bóta auk þess sem borgin okkar verður snyrtilegari ef hjólum er skipulega komið fyrir í hjólastæði frekar en hlekkjuð við næsta ljósastaur.
Kæri hugmyndahöfundur, þakka þér kærlega fyrir þátttöku þína í verkefninu Hverfið mitt. Yfir 1320 mjög góðar hugmyndir bárust og öll þátttökumet voru slegin. Hugmynd þín var metin tæk* af fagteymi sérfræðinga verkefnisins. Þær 5 hugmyndir sem fengu flest like í hverju hverfi, af þeim sem eru tækar, fara sjálfkrafa á kjörseðlana. Þín hugmynd var ein af efstu fimm og er því sjálfkrafa komin á kjörseðilinn í þínu hverfi. Næsta skref í verkefninu er að velja aðrar þær hugmyndir sem eiga að fara á kjörseðilinn í hverju hverfi. Þetta skref fer fram á opnum aukafundum íbúaráða sem verður streymt á Facebook. Allir geta tekið þátt í þessum fundum. Þeir sem fylgjast með útsendingunni geta tekið þátt í uppstillingunni. Gaman væri að þú tækir þátt í því að vekja athygli á fundinum þegar hann verður í þínu hverfi sem og kosningunni þegar þar að kemur. Dagsetningar fundanna, hlekkir á Facebook eventa og nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. *Starfsfólks verkefnisins fer yfir innsendar hugmyndir og haft er samstarf við ýmsa sérfræðinga þegar metið er hvort hugmyndir uppfylla reglur verkefnisins. Nánari upplýsingar um yfirferðarferlið: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-god-rad-fyrir-thina-hugmynd. Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson hverfidmitt@reykjavik.is
Algjörlega sammála. Bikeep hjólabogarnir eru öruggir og góðir í notkun. Ef þeir eru yfirbyggðir væri það enn betra. Bónus stig ef það er hægt að smúla og þrífa hjólin með slöngu.
Tek undir með höfundi tillögu og legg sérstaka áherslu á að tillagan leiði ekki til þess að gangstéttar og annað borgarland verði skert með hjólastæðum - nóg er um þrengingar fyrir - pláss ætti eingöngu að koma frá bílastæðum og öðrum óumhverfisvænum gatnainnviðum.
Frábær tillaga en þá þyrfti að auka öryggi á þessum hjólastæði. Eins og staðan er í dag er mikið af þjófnað á hjólum í miðborginni og það þyrfti að auka gæslu eða meiri öryggi svo maður treystir sér að leggja hjólið þar án þess að það verði stolið.
Góð hugmynd. Það er allra hagur að fá fleiri á hjólin.
Þetta er frábær tillaga. Megi hún verða að veruleika sem fyrst og dreifast sem víðast. Að hafa öruggan og þurran stað til að geyma hjól er lykilatriði í að gera fólki kleift að nota hjól sem samgöngumáta í meira mæli um allt árið og sömuleiðis við að fjölga hjólreiðafólki yfir höfuð. Bravó!
Kæri hugmyndahöfundur, Til hamingju hugmyndin þín hlaut kosningu í Hverfið mitt 2021. Alls voru 111 hugmyndir kosnar og munu þær koma til framkvæmda á árinu 2022, niðurstöður kosninga má sjá á www.Hverfidmitt.is. Næsta haust hefst hugmyndasöfnun að nýju og gefst þá Reykvíkingum aftur tækifæri til þess að setja inn hugmyndir að verkefnum sem gera hverfi borgarinnar betri og skemmtilegri. Við þökkum þér kærlega fyrir þína þátttöku og viljum hvetja þig til þess að halda áfram að vera virkur þátttakandi í málefnum hverfisins. Ýmsar leiðir eru fyrir borgarbúa til þess að hafa áhrif á þróun borgarsamfélagsins og síns nærumhverfis. Íbúaráð Reykjavíkurborgar eru lifandi samstarfsvettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Virk íbúaráð eru í öllum hverfum Reykjavíkur og funda þau í hverjum mánuði yfir vetrarmánuðina. Nánari upplýsingar er að finna hér: https://reykjavik.is/ibuarad. Einnig viljum við vekja athygli á því að ábendingavefurinn er alltaf opinn fyrir borgarbúa sem vilja láta vita af einhverju sem betur má fara í umhverfinu eða þarfnast lagfæringar: https://abendingar.reykjavik.is/. Bestu kveðjur, Eiríkur Búi Halldórsson hverfidmitt@reykjavik.is
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation