Hvað viltu láta gera? Fækka stoppum strætisvagna í Lækjargötu með því að færa biðstöðina við MR um 80 metra í norður og hafa hana við ljósin við Bankastræti. Á sama tíma má leggja af biðstöðina Stjórnarráð sem er þá aðeins um 100 metra frá nýju biðstöðinni. Hvers vegna viltu láta gera það? 1. Fækka óþarfa stoppum. Við núverandi aðstæður stöðva vagnarnir gjarnan fyrst við Vonarstræti, þá ljósin við Skólabrú og svo er biðstöðin MR örfáum metrum síðar. Loks eru svo ljósin við Bankastræti. Eðlilegra væri að vagnarnir gætu ekið beint frá ljósunum við Skólabrú og á biðstöðina við ljósin við Bankastrætið. Þaðan væri svo ekið á næstu biðstöð við Þjóðleikhúsið. 2. Biðstöðin Stjórnarráð neðst á Hverfisgötu er í dag innan við 200 metra frá biðstöðinni MR. Hún yrði óþörf með biðstöð við Bankastræti. Aðkoma inn á hana úr beygjunni upp Hverfisgötu er fremur klúðursleg, einkum ef fleiri vagnar eru á ferð í einu sem oft gerist. 3. Draga úr hættu á ruglingi fyrir óvana notendur/ferðafólk. Í stað þess að biðstöðvar í gagnstæðar áttir séu sýnilegar þarf oft að vísa fólki upp í Hverfisgötu eða suður eftir Lækjargötu í vagna á leið í gagnstæða átt. Sýnileg stöð handan við gatnamótin væri mjög til bóta og gæti hvatt gesti í miðborg til að nota strætó. 3. Þrátt fyrir færri stopp, einni biðstöð færra og minni tafir yrði þjónustuskerðing hverfandi. MR-ingar þyrftu að ganga 80 metra til viðbótar og þrátt fyrir að sleppa Stjórnarráðsstöðinni yrðu vel innan við fjögur hundruð metrar frá nýrri biðstöð við Bankastræti að næstu stöð upp við Þjóðleikhús. 4. Draga úr misnotkun á sérreinum strætó. Með því að staðsetja biðstöðina á sérrein strætó við ljósin, líkt og gert er Lækjartorgsmegin, má draga úr algengri misnotkun einkabíla á þessari sérrein.
Á ca 500 metra kafla, frá Vonarstræti að Þjóðleikhúsi, þurfa 5 strætóleiðir (1, 6, 11, 12 og 13), þar af tvær hraðleiðir, gjarnan að stöðva 6 sinnum (ljós Vonarstræti, ljós Skólabrú, biðstöð MR, ljós Bankastræti, ljós Hverfisgötu, biðstöð Stjórnarráðið). Tillagan er að fækka um tvö stopp, einfalda um leið notkun á tengistöðinni við Lækjartorg og draga úr misnotkun á sérrein strætó í Lækjargötu. Þigg gjarnan mótrök frá þeim sem kjósa hugmyndina niður.
Kæri hugmyndahöfundur, þakka þér kærlega fyrir þátttöku þína í verkefninu Hverfið mitt. Yfir 1320 mjög góðar hugmyndir bárust og öll þátttökumet voru slegin. Fagteymi sérfræðinga verkefnisins hefur lokið við yfirferð hugmynda. Hugmyndin þín er ekki tæk* til kosningar í verkefninu Hverfið mitt 2020 - 2021. Um er að ræða svæði sem verkefnið samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins mun taka fyrir á næstu árum. Samgöngusáttmálinn er samkomulag ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Nánari upplýsingar eru hér: https://www.stjornarradid.is/verkefni/samgongur-og-fjarskipti/samgonguaaetlun/sattmali-um-samgongur-a-hofudborgarsvaedinu. Næsta skref í verkefninu er að velja þær hugmyndir sem eiga að fara á kjörseðilinn í hverju hverfi. Þetta skref fer fram á opnum aukafundum íbúaráða sem verður streymt á Facebook. Allir geta tekið þátt í þessum fundum. Þeir sem fylgjast með útsendingunni geta tekið þátt í uppstillingunni. Gaman væri að þú tækir þátt í því að vekja athygli á fundinum þegar hann verður í þínu hverfi sem og kosningunni þegar þar að kemur. Dagsetningar fundanna, hlekkir á Facebook eventa og nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. *Starfsfólks verkefnisins fer yfir innsendar hugmyndir og haft er samstarf við ýmsa sérfræðinga þegar metið er hvort hugmyndir uppfylla reglur verkefnisins. Nánari upplýsingar um yfirferðarferlið: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-god-rad-fyrir-thina-hugmynd. Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson hverfidmitt@reykjavik.is
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation