Hvað viltu láta gera? Bæta þarf göngutengingar milli Álftamýri/Safamýri og Háaleitis yfir í Hlíðahverfið. Til að komast á milli þessara aðlægu hverfa þarf að fara um mjög umferðarþung gatnamót þar sem gangandi og hjólandi vegfarendur þurfa að standa í miklu návígi við mjög hraða og mikla umferð. Gera ætti tengingu á milli hverfanna fyrir miðja Kringlumýrarbraut milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar. Heppileg staðsetning með tilliti til göngutenginga innan hverfanna væri að staðsetja göngutenginguna í framhaldi af Starmýri. Gönguljós sambærileg þeim við Hamrahlíð sunnar á Kringlumýrarbraut eða við Skaftahlíð á Miklubraut væru möguleg útfærsla. Einnig mætti skoða að gera göngubrú þarna yfir þó slíkt mannvirki yrði dáldið umfangsmikið í umhverfinu. Hvers vegna viltu láta gera það? Bættar göngutengingar milli hverfanna skiptir lykilmáli til að auka hlutdeild gangandi og hjólandi vegfarenda. Fjöldi íbúa í Háaleitishverfinu sækir vinnu í miðbænum og eins eru fjölmargir íbúar í Hlíðum sem sækja vinnu í Múlahverfinu. Myndi göngu- og hjólatenging af þessum toga stórbæta möguleika íbúa á að nota virka samgöngumáta á leið til vinnu. Einnig myndi þetta bæta aðgengi íbúa í Háaleitishverfi að Klambratúni sem verður skemmtilegri með hverju árinu og á móti fengju íbúar Hlíðanna bætt aðgengi að íþróttasvæðinu í Safamýri og Laugardalnum með öllum þeim gæðum sem þar er að finna.
Kæri hugmyndahöfundur, þakka þér kærlega fyrir þátttöku þína í verkefninu Hverfið mitt. Yfir 1320 mjög góðar hugmyndir bárust og öll þátttökumet voru slegin. Fagteymi sérfræðinga verkefnisins hefur lokið við yfirferð hugmynda. Hugmyndin þín er ekki tæk* til kosningar í verkefninu Hverfið mitt 2020 - 2021. Um er að ræða þjóðveg í þéttbýli og breytingar því á forræði Vegagerðarinnar sem er veghaldari þjóðvega. Vegagerðin og Reykjavíkurborg eiga farsælt samstarf um úrbætur á þjóðvegum og verður tillögunni komið áfram til Vegagerðarinnar og skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Næsta skref í verkefninu er að velja þær hugmyndir sem eiga að fara á kjörseðilinn í hverju hverfi. Þetta skref fer fram á opnum aukafundum íbúaráða sem verður streymt á Facebook. Allir geta tekið þátt í þessum fundum. Þeir sem fylgjast með útsendingunni geta tekið þátt í uppstillingunni. Gaman væri að þú tækir þátt í því að vekja athygli á fundinum þegar hann verður í þínu hverfi sem og kosningunni þegar þar að kemur. Dagsetningar fundanna, hlekkir á Facebook eventa og nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. *Starfsfólks verkefnisins fer yfir innsendar hugmyndir og haft er samstarf við ýmsa sérfræðinga þegar metið er hvort hugmyndir uppfylla reglur verkefnisins. Nánari upplýsingar um yfirferðarferlið: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-god-rad-fyrir-thina-hugmynd. Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson hverfidmitt@reykjavik.is
Frábær hugmynd, göngubrú er nauðsynleg til að tengja þessi hverfi almennilega. Maður hefur séð leikskólahópa fara yfir þessi gatnamót á háannatíma sem er glórulaust. Þetta eru einhver umferðarþyngstu gatnamót landsins, og þ.a.l. er hættan töluverð fyrir ungviði sem þarf að komast þarna reglulega á milli. Mætti til að kjósa þessa hugmynd seinast en hún fékk ekki að vera með í kosningunni þá sökum skorts á fjármagni. Nú á að vera meira fjármagn í boði, vonandi tekur borgin þetta til skoðunar.
Um einkalóð er að ræða og þar sem göngustígur er teiknaður inn á myndina hér að ofan eru bílskúrar og því ekki hægt að koma göngustíg fyrir þar. Lóðamörk hverrar blokkar Í Álftamýri ná alveg að lóðarmörkum næstu blokkar. Er mótfallin því að hafa göngustíga inni á einkalóðum.
Ég hef lagt þessa tillögu til áður. Sem bíllaus íbúi í þessu hverfi þá þekki ég það vel að öll þessi gatnamót eru þung að fara yfir og bílar keyra mjög hratt og fara yfir á gulu. Það eru leikvellir og skólar við öll þessi gatnamót og börn fara mikið yfir þessar götur og það bíður hættunni heim. Ég vil þó heldur göngubrú en gönguljós. Því miður hefur það gerst oftar en einu sinni eða tvisvar að ég hef næstum verið keyrð niður á öllum þessum ljósum þegar ég er að ganga yfir á grænu gönguljósi.
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation