Útieldun í Úlfaskógi (Garðaflöt)

Útieldun í Úlfaskógi (Garðaflöt)

Hvað viltu láta gera? Hugmyndin er að koma fyrir aðstöðu til útieldunar í Úlfaskógi (Garðaflöt), þar sem ungir sem aldnir geta eldað mat undir berum himni og notið þess að borða saman í grænu umhverfi. Sólin skín, þrestirnir skríkja og það heyrast hlátrasköll í glöðum krökkum. Ilmur af borgurum leggur yfir svæðið. Eftir langan dag af leikjum og ævintýrum er loksins kominn matur! Á milli Hæðargarðs og Hólmgarðs er lítill grænn reitur, sem formlega heitir Garðaflöt, en er aldrei kallaður neitt annað en hinu ævintýralega nafni Úlfaskógur í daglegu tali þeirra barna sem alast upp í nágrenninu. Garðinn prýða leiktæki, lítill skúr í niðurníðslu og borð og bekkir, auk gróðurs sem myndar gott skjól og felustaði fyrir frakka krakka í feluleik. En það er auðvitað alltaf eitthvað sem gæti gert góðan garð enn betri! Skátana í Skátafélaginu Garðbúum, sem hýst er í húsinu hinu megin við Hólmgarðinn, dreymir um að eignast útieldhús! Þar væri hægt að elda undir berum himni, að sönnum skátasið, og leyfa ungum og öldnum Garðbúum að spreyta sig við matseld. Hugmyndin gengur út á að setja upp aðstöðu fyrir útieldun: Litla varðeldalaut (hlaðin eldstó og hlaðinn bekkur í hálfhring) Kolagrill og borð til að útbúa mat á Lækkað kolagrill fyrir börn og fólk í hjólastól Flokkunartunnur fyrir sorp Lítið skýli til að skýla grillurum fyrir veðri og vindum Ef möguleiki er: Vaskur með rennandi vatni og slökkvibúnaður. Nánari upplýsingar eru í viðhengi. Hvers vegna viltu láta gera það? Það eru fjölmörg græn svæði innan borgarmarka Reykjavíkur en mörg þeirra skortir aðstöðu. Það er fátt sem eflir liðsheild meira en að snæða saman og aðstaða fyrir útieldun gæti gert kraftaverk fyrir liðsanda skátasveita og skátaflokka, en einnig nýst fyrir götugrill íbúa í hverfinu, skólabörn í Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla, leikskólabörn frá leikskólanum Jörfa, leikskólanum Garðaborg og leikskólanum Skógarborg, sem báðir eru steinsnar frá garðinum, eldri borgara og aðra hópa sem sækja félagsstarf í Hæðagarði 31 og svo bara alla Reykvíkinga sem langar að koma saman og njóta saman í grænu umhverfi. Þá myndi aðstaðan nýtast við hverfahátíðir, svo sem á sumardeginum fyrsta og 17. júní, auk annarra viðburða á vegum skátanna sem hafa árum saman lagt lóð á vogaskálar þess að halda uppi góðum hverfisanda. Þá nýtist aðstaðan í hvers konar skátastarfi; til matseldar, til tilrauna, til leikja, til foreldrasamstarfs, viðburða og annarrar dagskrár. Þetta er tækifæri til þess að skapa stemmingu, efla hverfisvitund, auka færni barna og ungmenna í matseld, nýta græn svæði betur og búa til jákvæðar minningar í hugum reykvískra barna. Betri aðstaða auðveldar æskulýðsstarf í nágrenninu, en virkni í æskulýðsstarfi er ein af bestu forvörnum fyrir ungt fólk sem hugsast getur. Verkefnið rímar vel við hinar ýmsu stefnur borgarinnar, sem hér segir: Leiksvæðastefna Reykjavíkurborgar: Víðs vegar í borginni eru stór leiksvæði, sum staðsett í skrúðgörðum þar sem gott rými er til ýmiss konar samveru. Lagt er til að slík svæði verði skilgreind sem hverfisgarðar þar sem félaga- og íbúasamtök og Skóla- og frístundasvið eigi sér vísan stað. Hugað verði að aðstöðu til útikennslu og ýmiss konar starfsemi sem eðlilegt er að fari fram utan dyra. Hverfisgarðar verði vel staðsettir í hverfinu og gegni lykilhlutverki sem samkomustaður. Úr Frístundastefnu Reykjavíkurborgar: Áhersla verði lögð á að mæta þörfum barna og unglinga fyrir aðstöðu til skapandi starfs af fjölbreyttu tagi. Húsnæði og aðstaða í borginni verði betur nýtt í þágu frístundastarfs fyrir almenning Nýta styrkveitingar borgarinnar til að jafna aðgengi barna að frístundastarfi í öllum hverfum. Í þessu skyni verði horft til framboðs á þjónustu í hverfum og reynt að stuðla að auknu jafnræði. Skapa aðstæður til að koma betur til móts við unglinga í minnihlutahópum og hvetja til verkefna sem koma í veg fyrir félagslega einangrun þeirra. Fjölga styrkjum til verkefna sem hafa forvarnar- og heilsueflingargildi með sérstakri áherslu á að ná til þeirra sem þurfa sérstaka hvatningu og stuðning til þátttöku í skipulögðu frístundastarfi Úr stefnuskjalinu Græna borgin: Torg og önnur almenningsrými eiga að vera áhugaverðir áfangastaðir sem gera borgar- og hverfisbúum kleift að halda viðburði og njóta lífsins. Þau eru mikilvæg tæki til að viðhalda mannlífi og þjónustu innan hverfis. Umhverfisgæði hverfisins aukast og þörfin fyrir ferðalög út úr hverfinu minnkar Styrkja náttúru, landslag og útivistarsvæði í borginni sem hluta af bættum lífsgæðum og lýðheilsu borgarbúa. Borgarbúar njóti góðs aðgengis að fjölbreyttum útivistarsvæðum. Hverfisgarðar eru innan hvers borgarhluta og þjóna fyrst og fremst íbúum viðkomandi hverfa. Þeir eru af ýmsum toga, allt frá skrúðgörðum til torga og náttúrulegra svæða, og tengja oft saman íbúðahverfin við stærri útivistarsvæði borgarinnar, s.s. borgargarða og strandsvæði. Innan hverfisgarða er gert ráð fyrir ýmsum dvalarsvæðum og annarri útivistarog leikaðstöðu sem þjónar nærumhverfinu og sem flestum aldurshópum. Gera má ráð fyrir fjölbreyttri mannvirkjagerð af ýmsum toga sem tengist nýtingu og þjónustu svæðanna til útiveru, afþreyingar og leikja og allrar almennrar frístundaiðkunar. Einnig má gera ráð fyrir veitingaaðstöðu og veitumannvirkjum. Úr stefnuskjalinu Borg fyrir ungt fólk: Ýtt verði undir virka þátttöku ungs fólks í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi og stuðning fjölskyldunnar sem stuðlar umfram annað að heilbrigðum lífsstíl.

Points

Skemmtileg útieldunarsvæði, eins og þessi hugmynd, er frábær vettvangur fyrir skátahópa, bekki í skóla, fjölskyldur eða vinahópa til að hittast, njóta náttúrunnar og samverunnar við hvort annað.

Ég styð þetta heilshugar. Þroskandi fyrir unga skáta að læra útieldun auk þess sem íbúar fá þarna lítinn skemmtigarð fyrir fjölskyldurnar í leiðinni.

Skemmtileg svæði fyrir fjölskylduna.

Þetta er svo frábær hugmynd og bíður upp á alls konar skemmtileg tækifæri fyrir hópa til að koma saman. Skátafélagið Garðbúar hefur einnig verið duglegt að halda viðburði fyrir hverfið og þetta mun bara gera þau viðburði skemmtilegri og viðhalda þessari skemmtilegu stemmningu sem einkennir hverfið! :)

Kæri hugmyndahöfundur, þakka þér kærlega fyrir þátttöku þína í verkefninu Hverfið mitt. Yfir 1320 mjög góðar hugmyndir bárust og öll þátttökumet voru slegin. Hugmyndin þín var metin tæk* af fagteymi sérfræðinga verkefnisins og er ein af þeim hugmyndum sem stillt verður upp á fundi íbúaráðs Háaleitis og Bústaða á fimmtudaginn næstkomandi þann 6. maí milli kl. 17-19 þar sem valdar verða 25 af þeim hugmyndum sem verða á kjörseðli hverfisins í kosningunni í haust. Hér er hlekkur á Facebook event fundarins sem verður opinn og streymt beint: https://www.facebook.com/events/202843634962715. Í einhverjum tilfellum hafa hugmyndir verið sameinaðar þar sem þær hafa verið taldar mjög áþekkar annarri/öðrum hugmyndum og í nokkrum tilfellum höfum við gert litlar breytingar á hugmyndum til þess að þær falli betur að reglum verkefnisins.* Fundir íbúaráðanna þar sem valið verður hvaða hugmyndir fara á kjörseðla hverfanna næsta haust verða formlegir aukafundir þar sem allir geta tekið þátt. Við viljum eindregið hvetja þig til þess að taka þátt í fundinum í þínu hverfi og vekja athygli á honum og hugmynd þinni eins og þú hefur tækifæri til. Dagsetningar allra fundanna, hlekkir á Facebook eventa og nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. *Starfsfólks verkefnisins fer yfir innsendar hugmyndir og haft er samstarf við ýmsa sérfræðinga þegar metið er hvort hugmyndir uppfylla reglur verkefnisins. Nánari upplýsingar um yfirferðarferlið: https://reykjavik.is/hverfid-mitt-god-rad-fyrir-thina-hugmynd. Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson hverfidmitt@reykjavik.is

Kæri hugmyndahöfundur Þín hugmynd var valin á uppstillingarfundi til þess að vera á kjörseðli hverfisins í kosningunni í Hverfið mitt næsta haust. Uppstilling kjörseðila fyrir kosningarnar fór fram á fundum íbúaráða Reykjavíkurborgar frá 22. mars til 20. maí sl. og liggur nú niðurstaða fyrir í öllum hverfum. Nánari upplýsingar hér: https://reykjavik.is/uppstilling-kjorsedla-fyrir-hverfid-mitt. Í fyrsta skipti var öllum boðin þátttaka í þessum lið ferilsins, þ.e. að velja hugmyndir á kjörseðilinn að yfirferðar- og samráðsferli loknu. Þátttakan í uppstillingunni fór fram úr björtustu vonum og niðurstaðan er að margar frábærar hugmyndir verða á kjörseðlum allra hverfa Reykjavíkur í kosningunni í haust. Á www.hverfidmitt.is má sjá þær hugmyndir sem verða til kosninga í verkefninu Hverfið mitt þann 30. september - 14. október næstkomandi. Til þess að auka líkurnar á því að þín hugmynd verði kosin til framkvæmda sumarið 2022 getur þú kynnt hugmyndina fyrir nágrönnum þínum og hvatt þau til þess að taka þátt í kosningunni í haust. Við sendum þér póst og minnum þig á þegar að því kemur. F.h. Hverfið mitt Kær kveðja, Eiríkur Búi Halldórsson hverfidmitt@reykjavik.is

Kæri hugmyndahöfundur, Til hamingju hugmyndin þín hlaut kosningu í Hverfið mitt 2021. Alls voru 111 hugmyndir kosnar og munu þær koma til framkvæmda á árinu 2022, niðurstöður kosninga má sjá á www.Hverfidmitt.is. Næsta haust hefst hugmyndasöfnun að nýju og gefst þá Reykvíkingum aftur tækifæri til þess að setja inn hugmyndir að verkefnum sem gera hverfi borgarinnar betri og skemmtilegri. Við þökkum þér kærlega fyrir þína þátttöku og viljum hvetja þig til þess að halda áfram að vera virkur þátttakandi í málefnum hverfisins. Ýmsar leiðir eru fyrir borgarbúa til þess að hafa áhrif á þróun borgarsamfélagsins og síns nærumhverfis. Íbúaráð Reykjavíkurborgar eru lifandi samstarfsvettvangur samráðs íbúa, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Virk íbúaráð eru í öllum hverfum Reykjavíkur og funda þau í hverjum mánuði yfir vetrarmánuðina. Nánari upplýsingar er að finna hér: https://reykjavik.is/ibuarad. Einnig viljum við vekja athygli á því að ábendingavefurinn er alltaf opinn fyrir borgarbúa sem vilja láta vita af einhverju sem betur má fara í umhverfinu eða þarfnast lagfæringar: https://abendingar.reykjavik.is/. Bestu kveðjur, Eiríkur Búi Halldórsson hverfidmitt@reykjavik.is

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information